Við erum ekki einu sinni að grínast. Þetta er ekki smelludólgsfyrirsögn þótt hún sé ofstuðluð.
Það er til aðferð til að fjölga fylgjendum á Facebook og hún kostar ekki annað en smá handavinnu. Ókei, brella er kannski svolítið ýkt orð, því það eru engin raunveruleg brögð í tafli og þessi möguleiki er búinn að vera í boði í langan tíma. En málið er að það vita ekki margir af honum. Fyrr en núna.
Flott, komdu þér að efninu
Ef þú ert með Facebook-síðu fyrir fyrirtækið þitt hefurðu (vonandi) sett reglulega inn færslur á hana og (vonandi) fengið einhver viðbrögð við þeim. Farðu og finndu færslu sem nokkrum líkaði við og smelltu á nöfnin þeirra.
Þá sérðu hvort fólkið er nú þegar að fylgja síðunni þinni. Ef það gerir það ekki, skaltu smella á „invite“ við hliðina á nafninu þeirra.
Búmm.
Fólkið fær tilkynningu þar sem því er boðið að líka við síðuna þína. Samkvæmt óvísindalegri könnun okkar virkar það í u.þ.b. 20-25% tilvika!
Þetta er auðvitað pínu vesen en tekur samt ekki svo langan tíma ef maður rennir yfir nokkrar færslur einu sinni í viku. Fólk er flest algjörlega móttækilegt fyrir boðinu vegna þess að það er nýlega búið að smella „like“ á færslu frá þér.