Er gott að sleppa tökunum? Sjálfshjálp fyrir markaðsfólk (djók)

Mælingar

Takk fyrir að smella á svona loðna fyrirsögn. Bara svo það sé á hreinu þá ætla ég að fjalla um yfirtöku (e. takeover) áhrifavalda á samfélagsmiðlum fyrirtækja í skamman tíma. 

Hvað er yfirtaka á samfélagsmiðlum?

Yfirtaka á samfélagsmiðlum er þegar einhver (eða einhverjir) eins og áhrifavaldar, frægt fólk, viðskipavinir eða jafnvel starfsfólk fær að ráða yfir ákveðnum samfélagsmiðli fyrirtækis í stuttan tíma. Yfirleitt í einn dag en má alveg vera lengur. Stundum tekur fólkið yfir fleiri en einn miðil en það er auðvitað bara matsatriði.

Þegar ég tala um yfirtöku á samfélagsmiðlum, þá hugsar fólk oft um einhverja snælduvitlausa snappara (vel meint) sem eru kannski ekki heppilegasta valið fyrir Landlæknisembættið eða tryggingarfélög, en fínt val til dæmis fyrir símafyrirtæki, skyndibitastað eða Strætó.

Hvað er markmiðið?

áhrifavaldar á samfélagsmiðlum

En, það eru til fleiri samfélagsmiðlar en Snapchat, og „áhrifavaldar“ eru ekki bara Snapchat-stjörnur. Þú þarft ekki endilega manneskju sem er heimsfræg á Íslandi, það er alveg nóg að finna einhvern sem er til dæmis virtur í þínum geira. Það fer auðvitað allt eftir því hvers konar fyrirtæki um ræðir og ekki síst hvert markmiðið er:

  • Viltu vekja eins mikla athygli og mögulegt er?
  • Viltu ná til ákveðins hóps í þínum geira?
  • Viltu selja meira af ákveðinni vöru?
  • Viltu fá fólk inn á vefinn þinn?     

Ég veit þú ert að hugsa um Snapchat, en ekki hugsa bara um Snapchat. Þú getur til dæmis fengið fólk til að vera með Facebook live útsendingu, svara spurningum í gegnum Twitter, eða gera eitthvað sniðugt á Instagram story.

Finnst fólki ekkert klikkað að láta utanaðkomandi manneskju fá aðgang að samfélagsmiðlum fyrirtækisins?

Jú. Margir geta ekki hugsað sér að sleppa tökunum á samfélagsmiðlunum í eina mínútu, hvað þá í heilan dag. Við skiljum það vel. Hingað til hefurðu kannski stýrt hverju einasta smáatriði, passað að hver einasta færsla sé skrifuð með rödd og í anda ítarlega úthugsað vörumerkis. Þú hefur reynt að hafa stjórn á umræðunni og jafnvel borið færslur undir þrjá til fimm deildarstjóra áður en þær eru birtar. Þannig að tilhugsunin um að fá rassamynd (eða verra) á Instagram yljar þér ekki beint í hjartanu.

Augljóslega fylgir þessu því áhætta og örlítill kvíði. En við viljum þó meina að með því að vanda valið á áhrifavaldinum og leggja honum skýrar línur trompi ávinningurinn áhyggjurnar. Fólk er auðvitað heiðarlegt og skynsamlegt upp til hópa. Áhrifavaldar líka.

Prófið að sleppa tökunum. Hvað er það versta sem gæti gerst? En það besta?

Reynið að hafa ekki eitthvað svona vandræðalegt
Reynið að hafa ekki eitthvað svona vandræðalegt

Hvað telst sem vel heppnuð yfirtaka áhrifavalda á samfélagsmiðlum?

Eitt af því fallegasta og besta við okkar geira, það er að segja markaðssetningu á netinu, er að mörg markmið eru mælanleg í bak og fyrir.

Þegar kemur að yfirtöku á samfélagsmiðlum er ekki 100% hægt að mæla öll áhrifin með góðu móti, en við getum mælt ýmislegt. Þegar kemur að yfirtöku horfum við helst á:

  • Fjölda fylgjenda
  • Virkni fylgjenda á meðan herferð stendur
  • Sölu / skráningar / o.s.frv.
  • Umferð á vef
  • Stöðu vefsvæðisins í leitarvélum. Hún ætti að batna ef herferðin vekur athygli og fólk er að linka á síðuna, fjölmiðlar fjalla um hana eða álíka.

Mælingar

Góð ráð

Hér eru nokkrar athugasemdir í viðbót. Ég vona að greinin nýtist ykkur vel og kveiki einhver ljós í hugmyndaperunum ykkar.

  • Tengið yfirtökuna við einhvern viðburð. Til dæmis þegar ný vara eða þjónusta er sett á markað, fyrirtækið á afmæli, tilboðsdagar eru í gangi, o.s.frv.
  • Gefið fólki skýran ramma og leggið þeim línurnar áður en haldið er af stað. Auðvitað getið þið líka gefið því lausan tauminn ef þið metið aðstæður þannig. Það er mjög góð hugmynd að gera skriflegan samning um helstu atriði.
  • Þetta á auðvitað helst að vera skemmtilegt eða fræðandi, og ábatasamt fyrir báða aðila.
  • Ekki gleyma að skipta um lykilorð eftir yfirtökuna!
  • Hugsið vel um hvaða hashtags á að nota.
  • Þótt að viðkomandi taki bara yfir einn miðil skaltu ekki gleyma að auglýsa það á hinum.
  • Googlið ykkur til um vel heppnaðar yfirtökur til að fá fleiri hugmyndir!

Höfundur er Lilja Þorsteinsdóttir