Leitarvélabestun 2018 – nokkur mikilvæg atriði að mati The Engine

Raddleit á Google

Ef Einhildur frænka þín segist kunna allt um leitarvélabestun því hún skrifaði meta-lýsingu og setti leitarorð í texta árið 2014 skaltu bakka rólega og segjast þurfa að drífa þig til tannlæknis. Ég get lofað þér því að meira að segja sérfræðingar í leitarvélabestun, og þá erum við að tala um fólk sem vinnur við hana alla daga, eru aldrei 100% með allt á hreinu. Ástæðan er sú að reiknireglur leitarvélanna eru sífellt að breytast, og það sem þú lærðir um leitarvélabestun í hittiðfyrra á ekki við í dag.

„Kauptu 500 linka á $5 og vertu í efsta sæti á Google!“ …. Ehhh nei.

Vissulega er ákveðin atriði sem halda gildi sínu ár frá ári, en tímarnir breytast og leitarvélarnar með. Því er mikilvægt að þekkja vel undirstöðuatriðin, vita hvenær er verið að selja þér snákaolíu, og fylgast með því hvað er að gerast í leitarvélaheimum hverju sinni.

Leitarvélabestun á ekki að vera snákaolía
Hæ krakkar, viljið þið kaupa linka?

Við hjá The Engine erum auðvitað sérfræðingarnir sem vinna allan liðlangan daginn við leitarvélabestun og fylgjumst grannt með öllum nýjungum. Enda höfum við náð undraverðum árangri fyrir viðskiptavini okkar í lífrænum (e. organic) leitarniðurstöðum fyrir þeirra leitarorð, þótt við segjum sjálf frá.

Ég ætla að henda hérna í stutta upptalningu á atriðum sem við höfum verið að leggja meiri áherslu á undanfarið og vitum að verða mikilvæg á árinu 2018. Njóddið.

Sérstæðir bútar (e. featured snippets)

Ég var í korter að finna góða þýðingu og endaði með þessa. Sendið mér hatursfullan tölvupóst ef þið eruð ekki sammála og viljið kalla þetta „dót sem er efst á Google í svona boxi“. Þið hafið ekki rangt fyrir ykkur:

featured snippet

Hér má sjá mynd af sérstæðum búti (það er of seint að bakka með þýðinguna núna) sem kemur fyrir ofan aðrar leitarniðurstöður.

Hvers vegna að vera í 1. sæti á Google þegar þú getur verið í 0. sæti og birst enn ofar? Það er engin ein skotheld leið til að láta þína síðu birtast sem sérstæðan bút í Google. En, það eru ákveðin skref sem hægt er að taka til að auka líkurnar. Oft tengjast bútarnir raddleit, sem er einmitt næsta atriðið á listanum mínum.

Raddleit (e. voice search)

„OK, Google, nota margir raddleit?“ Já, mjög margir. Algeng tala sem ég les er að 50% allra leita árið 2020 verði raddleitir, og árið 2020 er bara alls ekki svo langt undan! Tæki eins og Alexa og Google home eru að verða sívinsælli á svokölluðum snjallheimilum og fólk notar auðvitað mikið raddleit í símanum sínum í stað þess að pikka á lyklaborðið.

Raddleit á Google
Mynd ótengd raddleit.

Hvað kemur raddleit leitarvélabestun við?

Jú, ef þú bestar síðuna þína með raddleitir í huga aukast líkurnar á því að síðan þín birtist sem sérstæður bútur. Til dæmis ef þú ert að svara spurningum sem brenna á fólki. Fólk leitar aðeins öðruvísi með raddleit heldur en þegar það skrifar eitthvað inn í tölvuna eða símann. Það orðar hlutina til dæmis öðruvísi.

Þetta á kannski ekki alltaf við. En, hafðu það samt í huga þegar þú ert að skrifa nýjan texta eða breyta síðunni þinni. Raddleit tengist líka næsta atriði á listanum mínum.

Svæðisbundin leit (e. local search)

svæðisbundin leitSamkvæmt Google eru allt að 1/3 leita í leitarvélinni svæðisbundnar ef fólk er í snjalltæki. Þá er fólk til dæmis að leita að veitingastað, afþreyingu eða álíka, nálægt sér eða á ákveðnu svæði. Til dæmis: „veitingastaður í Reykjavík sem er opinn núna“. Ef þú átt verslun eða ert með aðra þjónustu á ákveðnu svæði er mjög mikilvægt að þú hafir upplýsingar um staðsetningu, opnunartíma og þess háttar sýnilegar. Ef þú átt eftir að skrá þig á Google my Business þá mæli ég eindregið með því að þú gerir það strax.

Google my business

Vefurinn þinn þarf að vera frábær fyrir snjalltæki

Leitarvélar eins og Google eru ekkert að grínast með þetta. Ef síðan þín virkar ekki vel í snjalltækjum, er of hæg eða illa hönnuð fyrir þau ertu ekki í góðum málum gagnvart samkeppninni. Þróunin í þessa átt er mjög ör og allar spár sýna fram á mikla tilfærslu á komandi árum.

Strax núna á árinu 2018 fer Google að auka meira vægi snjallvænna vefja í leitarniðurstöðum. Þetta þýðir að ef vefurinn þinn er frábær í tölvum en lélegur í snjalltækjum kemur síðan þín til með að birtast neðar í leitarniðurstöðum. Á meðan munu aðrir og snjalltækjavænni vefir skríða ofar.

Notendaupplifun skiptir líka máli fyrir leitarvélabestun

Ef síðan þín er of hæg, illa hönnuð, illa skipulögð, er ekki með gott efni sem heldur athygli lesenda, og hreinlega pirrar fólk á einhvern hátt, áttu ekki gott í vændum. Notendaupplifun af vefsíðu skiptir alltaf meira og meira máli þegar kemur að uppröðun hennar í leitarvélunum. Leitarvélarnar eru orðnar nógu gáfaðar til að meta það hvort síðan þín bjóði upp á góða notendaupplifun eða ekki.

Reiknireglurnar taka inn í myndina alls kyns hluti eins og hversu löngum tíma notandi eyðir á síðunni, hversu margar síður hann skoðar, og svo framvegis

Verður 2018 þitt ár á leitarvélunum?

Ég vona að svo verði. Gerðu létta úttekt á vefnum þínum. Skoðaðu hversu gott efnið er, hversu vel skipulagt það er, hvort tæknileg atriði séu í lagi. Sjáðu hvort hann hlaðist hratt og örugglega inn í öllum tækjum og líti vel út.

Kíktu til okkar hjá The Engine og við getum farið yfir málin með þér. Við gerum úttektir og skýrslur yfir stöðu vefsvæðis þíns í leitarvélum. Við mótum stefnu í samráði við þig og hjálpum þér að fylgja henni eftir. Við elskum að nördast í leitarvélabestun. Það er svo ótrúlega góð tilfinning að sjá vefi birtast ofar í leitarvélunum og fá lífræna smelli, aukna sölu og umferð!

Höfundur er Lilja Þorsteinsdóttir