Skrifaðu góðar meta-lýsingar (e. Meta Descriptions)

Unicorn

Leitarvélar eins og Google taka fjölmarga þætti til greina þegar kemur að því að ákvarða í hvaða sæti síðan þín lendir fyrir ákveðin leitarorð. Sumir þáttanna eru samt mikilvægari en aðrir og góðar meta-lýsingar eru talsvert mikilvægar. Ekki bara fyrir reiknireglur leitarvélanna, heldur líka fyrir fólkið sem leitar og vill fá upplýsingar áður en það smellir.

Hvað eru meta-lýsingar?

Prófaðu að leita að einhverju í Google. Til dæmis ‚unicorn‘. Hér er efsta niðurstaðan frá Wikipedia:

Meta-lýsingar

Það sem er í vel teiknaða rauða kassanum er meta-lýsing eins og hún birtist í Google. Hún er textabútur sem er settur í kóðann á síðunni þinni sem HTML-merki (e. HTML tag) og getur verið allt að 320 stafabil, sem er oftast um það bil tvær til þrjár setningar. Ef hún er of löng þá klippir leitarvélin aftan af textanum sem er umfram hámarkslengd.

Þú getur stjórnað því hvaða texti birtist í meta-lýsingu, en ef þú setur enga sérstaka lýsingu þá grípur leitarvélin fyrsta textann sem hún finnur á síðunni þinni eða annan texta sem hún telur viðeigandi. Stundum er það allt í lagi, en oftar en ekki kemur það illa út.

Segjum að mig langi sjúklega mikið að panta mér flögusalt af netinu og Googla ‚flake salt‘. Ég er talsvert líklegri til að smella á þessa niðurstöðu:

meta description

Frekar en þessa:

Meta-lýsing

Sú fyrri er ekki fullkomin, hún er til dæmis of löng. En, hún selur mér flögusaltið mun betur, því ég borða bara handtýnt, píramídalagað salt. Ekkert rugl.

Endilega prófaðu að Googla eitthvað leitarorð sem tengist vefsíðunni þinni og skoðaðu hvernig síðan þín birtist í leitarniðurstöðum. Eða, enn betra, skrifaðu site:síðanþín.is (þá meina ég eitthvað eins og site:google.com eða site:theengine.is) í leitina og sjáðu niðurstöðuna. Er lýsingin viðeigandi fyrir leitarorðið og innihald síðunnar? Ef svo er þá ertu í fínum málum. Ef þú færð bara eitthvað rugl eða texta sem lýsir engan veginn því sem er á síðunni þarftu að breyta því.

Athugaðu að þú vilt hafa sérstaka meta-lýsingu fyrir hverja einustu síðu á vefsvæðinu þínu. Alls ekki afrita bara eina meta-lýsingu og klessa henni á allar hinar síðurnar. Leitarvélarnar fíla það ekki, og sennilega fólk ekki heldur.

Meta description
Mmmmm, salt.

Hvað þarf að koma fram í meta-lýsingu?

Það er pínu erfitt að alhæfa um það hvað á að vera nákvæmlega í meta-lýsingu, en ég get a.m.k. gefið þér einhverja hugmynd:

  • Segðu lesandanum í stuttu máli hvað gerist þegar hann smellir. Er hann að fara að lesa leiðarvísi um pústviðgerðir, sjá opnunartíma í versluninni þinni eða horfa á myndband um hundaþjálfun?
  • Notaðu orð sem hvetja fólk til að smella á þína niðurstöðu:
    • Smelltu…
    • Lærðu…
    • Lestu…
    • Kauptu…
    • Uppgötvaðu…
  • Fólk er að leita. Það vill kaupa eitthvað, læra um eitthvað eða lesa um eitthvað. Ímyndaðu þér hvað þú myndir vilja vita ef þú værir að leita að því sama. Reyndu að sannfæra fólk um að þú sért að fara að svara spurningunni þeirra eða uppfylla þörfina.
  • Reyndu að hafa helsta leitarorðið eða leitarfrasann í textanum. Þú þarft ekki að endurtaka það eða troða því á óviðeigandi hátt í textann. Láttu það hljóma náttúrulega og textann flæða eðlilega.

Prófaðu þig áfram

Það er mjög misjafnlega flókið eftir vefkerfum að breyta meta-lýsingum og þú gætir þurft leiðbeiningar eða aðstoð frá þeim sem setti vefinn upp. En ef þú ert t.d. með WordPress-vef er það ekki flókið. Til er fjöldinn allur af viðbótum fyrir kerfið sem auðvelda þér að setja inn meta-lýsingar.

Prófaðu að breyta lýsingunum og fylgstu með því hvort staða síðunnar í leitarvélum breytist eða hvort fólk sé duglegra að smella en áður.

meta metaEf þetta flækist fyrir þér, heyrðu bara í okkur hjá The Engine 😊

 

 

 

 

 

 

Höfundur er Lilja Þorsteinsdóttir