Samkeppnin á Internetinu er gífurleg, sérstaklega ef þú ert að reka ferðaþjónustufyrirtæki, því ekki ertu einungis að keppa við önnur íslensk fyrirtæki heldur öll hin fyrirtækin, bloggin og fréttaveiturnar sem skrifa um Ísland.
Það getur verið erfitt að byrja að skrifa ef þú ert óvanur eða óvön skrifum. Við höfum hér sett saman handhægan lista um hvað sé gott að hafa í huga þegar þú ætlar að byrja að skrifa.
1.Hvernig skal skrifa góðan texta
Það fyrsta sem verður að hafa í huga þegar þú skrifar blogg er að hugsa út í fyrir hvern þú ert að skrifa það. Ertu að skrifa fyrir einstakling eða fyrirtæki? Ef þú ert að skrifa fyrir fyrirtæki, hvernig er fyrirtækið? Er það stórt eða smátt? Er það nýtt á markaði eða er það eitt sem langflestir Íslendingar þekkja? Hver er markhópur fyrirtækisins?
Annað sem þú verður að passa: fyrsta málsgreinin verður að vera grípandi. Ef þú grípur ekki lesandann í fyrstu tveimur setningunum, þá missirðu hann.
Við fréttaskrif er mikilvægt að svara þessum spurningum: hver gerði hvað, hvenær, hvar, hvernig og hvers vegna. Þessar spurningar eiga ekki nærri því alltaf við um bloggtexta en það er ágætt að hafa þær bak við eyrað. Til dæmis ef þú ert að skrifa um Þingvelli, af hverju eru Þingvellir svona mikilvægir? Hvar eru þeir? Hvað gerir þá svona mikilvæga? Og svo framvegis.
2.Hvernig skal skrifa gott blogg
Blogg-greinar eru meira í anda akademískra ritgerða en fréttagreina. Yfirleitt muntu skrifa inngang, meginmál og lokaorð en auðvitað þurfa ekki allar greinar að vera svo fastar í sniðum.
2.1 Passaðu leitarorðin!
Það er ekki nóg að skrifa texta, það verður að passa að nota viðeigandi leitarorð (e. keywords) í textanum. Þau hjálpa fólki að finna textann þinn á leitarvélum, og bloggfærslur með góðum leitarorðum hjálpa mjög til við leitarvélabestun (e. SEO – search engine optimisation).
Það getur verið að freistandi að troða eins mörgum leitarorðum og þú kemur fyrir í textanum en ekki gera það. Leitarvélar líkt og Google eiga það til að refsa þeim síðum og færa þær neðar í niðurstöðurnar. Notaðu frekar leitarfrasa (e. keyword phrase) inni í textanum. Sem dæmi má taka frasana „northern lights in Iceland“ og „northern lights“ sem margir leita að.
2.2 Þarf leitarfrasi að vera í fyrirsögninni?
Titillinn (fyrirsögnin) er fyrsti staðurinn sem þú ættir að setja leitarfrasann. Þó að titillinn „Northern Lights in Iceland“ skeri sig ekki úr þeim fjölda greina sem er nú þegar til um norðurljósin, þá er hægt að bæta í titillinn og gera hann skemmtilegri. „The Best Places to See the Northern Lights in Iceland“ er til að mynda talsvert betri titill. Það má líka skipta „Iceland“ út fyrir Reykjavík, eða hvaða staðaheiti sem þú vilt skrifa um.
Passaðu bara að Google klippir á of langa titla. Reglan er sú að ef titillinn er 70 stafabil eða minna, þá ætti hann að sjást allur á leitarsíðu Google. Hinsvegar, ef textinn er lengri en 600 pixlar, þá klippist á titilinn.
Leitarfrasinn ætti líka að vera í vefslóðinni: www.síðanþín.is/northern-lights-in-Iceland
2.3 Leitarfrasar inni í texta
Leitarfrasarnir þurfa líka að vera í textanum sjálfum. Hvort sem þú ert með einn eða fleiri, þá er gott að nota þá í kaflaheitum og á nokkrum stöðum í textanum, en það fer auðvitað eftir því hversu langur textinn er.
Fólk nennir yfirleitt ekki að lesa fleiri en 2000-2500 orð í einu.
2.4 Ekki gleyma meta-textanum!
Meta-lýsingin er textinn sem kemur fyrir neðan slóðina þegar þú leitar á Google. Við höfum skrifað heilan póst um hvernig skal gera góða meta-lýsingu hér.
3. Handhægar vefsíður til að hjálpa þér við skrifin
Það er ekkert að því að fá hjálp við skrifin. Innsláttar- og ýmsar málfræðivillur geta slæðst inn í textann án þess að maður taki eftir því, þó maður lesi yfir. Ef maður þekkir ekki einhverja málfræðireglu til dæmis er engin leið fyrir höfund að sjá hana. Þess vegna er mikilvægt að fá hjálp.
Hér eru nokkrar síður sem við hjá The Engine notum nær daglega:
bin.arnastofnun.is – Beygingarlýsing íslensks nútímamáls, rekin af Árnastofnun.
Skrambi – prófarkales texta fyrir þig og finnur innsláttar- og málfræðivillur.
www.malid.is – Ókeypis íslenskar orðabækur. Þarna inni er hægt að finna beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, stafsetningarorðabókina, íslenska nútímaorðabók, íslenskt orðanet, málfarsbankann, íðorðabankann og íslenska orðsifjabók.
www.grammarly.com – enskt prófarkalestursforrit. Ókeypis útgáfan er fín en ef þú borgar fyrir forritið færðu enn meiri hjálp.
www.snara.is – þar er að finna hinar ýmsu orðabækur á íslensku, ensku, þýsku, dönsku, pólsku, spænsku, frönsku og ítölsku, sem og matreiðslubækur. Samheitaorðabókin og slangurorðabókin eru opnar öllum en passið ykkur að slangurorðabókin er ekki ósvipuð urbandictionary.com en þar geta allir sett inn sína eigin skilgreiningu á ákveðnum slangurorðum. Samheitaorðabókin er mikilvægt tól til skrifa.
www.thesaurus.com – ensk sam- og andheita orðabók. Mikilvæg þegar mann vantar þetta eina orð sem maður man ekki alveg. Hvað varðar ferðaþjónustu, þá eru til dæmis til fleiri orð en „amazing“ til að lýsa Íslandi.
http://www.seomofo.com/snippet-optimizer.html – Þessi síða getur hjálpað þér að sjá hvernig bloggið þitt mun koma út á leitarsíðu Google.
Höfundur er Helga Björgúlfsdóttir