Léleg upplifun á vef í snjallsíma hefur áhrif á viðskipti og minnkar sölu umtalsvert

Eins og frægt er þá reiknaði Amazon það út að ef vefur þeirra væri sekúndu lengur að hlaðast upp gæti það kostað 1,6 milljarða söluminnkun á hverju ári. Google vill meina að ef þau hægðu á leitarniðurstöðum sínum um aðeins fjóra tíundu úr sekúndu gætu tapast 8 milljón leitir á dag, sem myndi þýða gríðarlegt tap á auglýsingatekjum.

Í ár setti Google „mobile-index“ í forgang, eftir töluverðan undirbúning. Það er að segja, þau settu vefi í forgang sem hlaðast hratt og vel í vöfrum notenda.

Þetta hafði í för með sér að vefir sem eru þungir í vöfum og taka langan tíma í að hlaðast misstu mikið af þeim náttúrulega sýnileika sem þeir höfðu áður. Yfirleitt sést þetta best á leitum sem tengjast ekki vörumerkinu (best að sjá í gegnum Google Search Console).

Samkvæmt gögnum frá Google hefur þetta ekki aðeins áhrif á náttúrulega skráningu heldur líka töluverð áhrif á notandann, ef t.d. hleðslutími Google fer frá 1 sekúndu í 3 þá er líklegt að brottfall (bounce rate) aukist um 32%, ef síða fer í 5 sekúndur er líklegt að brotfall aukist um 90% og taki síða lengri tíma en 10 sekúndur að hlaðast er hún varla samkeppnishæf.

Jafnvel þótt nú sé 2018 og mest af mobile-umferð komi í gegnum 4G en ekki 3G eru vefir almennt ekki að standa sig. Þeir eru með of mikið af hlutum á hverri síðu sem tekur notandann of langan tíma að hlaða upp, og brotfall eykst.

Samkvæmt rannsóknum sem gerðar voru af Google, Kissmetrics og Amazon er bein tenging á milli slakari sölu og þess hversu langan tíma það tekur vef að hlaðast. 47% fólks býst við að vefsíða hlaðist á innan við 2 sekúndum, 40% yfirgefur vefinn ef það tekur lengri tíma en 3 sekúndur. 85% internetnotenda búast við því að farsímasíða hlaðist jafnhratt eða hraðar en í borðtölvu.

Ef allar síður þinnar vefsíðu eru undir 3 sekúndum ertu í betri málum en 70% vefja. Ef þú nærð þeim undir 2 sekúndur ertu í úrvalsdeildinni.

Prófaðu að skella vefnum þínum hér inn til að sjá hvernig Google sér hann og hvað einkunn hann fær:

https://developers.google.com/speed/pagespeed/insights/

Höfundur er Kristján Már Hauksson