Það geisar stríð – nýi heimurinn

Hinn nýi heimur, þar sem við tölum við snjalltækin okkar og notkun raddleitar (e. Voice search), er að vaxa kröftuglega og samskipti okkar mannfólksins við vélarnar er orðið af miklum veruleika. Í þessum heimi geisar stríð um hverjir verða fremstir í flokki í þessum geira.

Síðustu áratugir hafa verið ævintýralegir þegar horft er til breytinga á viðskiptum. Ný tækni hefur skapað nýja geira og með tilkomu einkatölvunnar á sínum tíma hafa neyslumynstur breyst verulega. Í hverst skipti sem tækninni hefur fleytt fram hefur heildarvelta markaða vaxið stórlega. Nýjasta stríðið sem geysar er stríðið um samskipti manna við tölvur, umfram snertingu (e. Beyond touch). Ekki nægir að mínu mati að tala einungis um radd-leit (e. voice search) því undirritaður telur samskiptin muni þróast hratt jafnvel umfram röddina.

Fyrir um 40 árum í kringum 1980 voru tölvur að verða algengari og vinsælli með Desktop OS, PC tölvum og notkun forrita (e. Programs). Í kjölfarið kom veraldarvefurinn um aldamótin (www) með  vöfrum, gagnabönkum og netsíðum. Þá tók við snjallsíminn með öllum þeim öppum sem þróuð hafa verið og IOS/Android stýrikerfum. Ávallt hafa fá fyrirtæki haslað sér völl sem leiðtogar, ekki nema 2-3 fyrirtæki. En peningalegir hagsmunir hafa verið stórir og samkeppnin hörð. Til mikils er að vinna fyrir fyrirtækin að ná að verða fyrst í nýjum geira.

Skv. Google voru 20% af öllum snjallsímaleitum 2016 radd-leit (e. Voice search). Árið 2018 áttu 16% af Ameríkönum, 18 ára og eldri, snjallhátalara. 25% af heildarmarkaðinum í Bandaríkjunum er Google Home snjallhátalarinn, en 69% eiga Amazon Echo. En það er ekki bara vélbúnaðurinn sem skiptir máli, heldur er stýrikerfið jafnvel mikilvægara. Þar virðist Amazon vera fremst í flokki fyrirtækja á þessu sviði með raddstýrða leit og notkunarmöguleika. Mikið vatn á eftir að renna til sjávar hins vegar svo tækifærin eru mikil.

Þrátt fyrir mikla framþróun í þessari tækni þá virðist hún enn sem komið er frekar einföld og á frumstigum. Fyrirtæki eru enn sem komið er lítið að besta vefsíður sínar fyrir slíkum leitum. Þar eru mikilvæg tól eins og „Featured Snippets“ árangursrík leið til að tala sérstaklega til þeirra sem nota raddleit. En eitt er víst, stríðið geysar um þetta næsta skref í tækniþróun og fróðlegt verður að sjá hverjir munu leiða hana á næstu árum.

Höfundur er Hreggviður S Magnússon