Hreggviður S. Magnússon hefur verið ráðinn sem framkvæmdastjóri The Engine. Hreggviður er hagfræðingur að mennt en hann hefur meðal annars starfað sem ráðgjafi, markaðs- og sölustjóri og framkvæmdastjóri síðastliðin ár.
Hann telur að fyrirtækið búi yfir mikilli sérhæfðri markaðs- og tækniþekkingu. „Ég hlakka til að takast á við þau spennandi og krefjandi verkefni sem bíða mín hjá The Engine. Fyrirtækið býr yfir mikilli þekkingu og reynslu til margra ára en starfar jafnframt í ört breytilegu tækniumhverfi,“ segir Hreggviður. „Stafrænar lausnir spila stærri og stærri hlutverk í markaðsaðgerðum fyrirtækja og með nýjum áherslum opnast ný tækifæri fyrir okkur í The Engine sem verður spennandi að takast á við.“
The Engine rekur sögu sína aftur til 1997 og hefur starfað fyrir fjölda erlendra og innlendra fyrirtækja í stafrænum lausnum og samskiptum. Meðal núverandi viðskiptavina má telja WOW Air, MS, Reykjavik Excursions, Domino´s í Noregi og Devold.
Hreggviður tekur við framkvæmdastjórn af Guðbirni „Begga“ Dan Gunnarssyni. Guðbjörn segist stoltur af árangri The Engine frá því hann tók við sem framkvæmdastjóri 2015 og telur fyrirtækið búa yfir miklum gæðum. The Engine veitir alhliða ráðgjöf í stafrænni markaðssetningu og hefur unnið til verðlauna á alþjóðlegum verðlaunahátíðum fyrir stafrænar herferðir. Jafnframt er fyrirtækið eini Premier samstarfsaðili Google á Íslandi.